Fótbolti

Neymar skaut Brössum áfram | Hondúras komið í undanúrslitin

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Neymar fagnar með liðsfélögum sínum eftir markið hjá Luan.
Neymar fagnar með liðsfélögum sínum eftir markið hjá Luan. Vísir/Getty
Brasilíska stórstjarnan Neymar komst loksins á blað á Ólympíuleikunum í 2-0 sigri Brasilíu gegn Kólumbíu í nótt en Brasilíumenn voru síðasta liðið sem komst inn í undanúrslitin.

Brasilíska landsliðið olli vonbrigðum framan af þegar liðið náði aðeins jafntefli gegn Suður-Afríku og Írak en leikmenn liðsins virðast vera vaknaðir til lífsins.

Neymar kom Brasilíu yfir á 12. mínútu leiksins með aukaspyrnu af 30 metra færi og lagði hann síðan upp seinna mark leiksins fyrir Luan á 83. mínútu.

Fleiri urðu mörkin ekki og komst Brasilía í undanúrslitin þar sem liðið mætir Hondúras sem sló út Suður Kóreu í gærkvöld.

Suður Kóreu menn voru mun sterkari aðilinn í leiknum en leikmenn Hondúras vörðust vel og beittu öflugum skyndisóknum en þannig kom eina mark leiksins.

Var þar að verki Alberth Elis á 59. mínútu leiksins þegar hann skoraði af stuttu færi eftir góðan undirbúning frá Rommel Quioto.

Í undanúrslitunum mætast því annarsvegar Brasilía og Hondúras og hinsvegar Nígería og Þýskaland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×