Fótbolti

Hannes varði víti og Randers fór á toppinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes varði víti og hélt hreinu.
Hannes varði víti og hélt hreinu. vísir/getty
Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu þegar Randers vann 2-0 sigur á Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Með sigrinum komst Randers á topp deildarinnar en lærisveinar Ólafs Kristjánssonar hafa unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum.

Bæði mörk leiksins komu í fyrri hálfleik. Erik Marxen kom Randers yfir á 26. mínútu og tveimur mínútum fyrir hálfleik tvöfaldaði Mikael Ishak forystuna.

Lyngby fékk kjörið tækifæri til að komast inn í leikinn þegar liðið fékk vítaspyrnu á 70. mínútu og Mads Fenger, miðvörður Randers, var rekinn af velli.

Mikkel Rygaard Jensen fór á punktinn en Hannes gerði sér lítið fyrir og varði.

Einum færri héldu leikmenn Randers út og fögnuðu góðum sigri.

Hallgrímur Jónasson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Lyngby sem er í 8. sæti deildarinnar með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×