Innlent

Bieberbrjálæðið í Kórnum formlega hafið

Jakob Bjarnar skrifar
Biðin langa, eftir Biebertónleikum á Íslandi, sem reynst hefur ýmsum aðdáandanum nánast óbærileg, er komin á lokastig. Búið er að opna inn á tónleikasvæðið og streymir mannfjöldinn, sem að mestu eru ungmenni, inn á svæðið.

Röð sem virtist óendanleg myndaðist við öryggishliðið inn á svæðið í Kórnum þar sem tónleikar unglingastjörnunnar verða haldnir í kvöld. Heldur viðraði leiðinlega á tónleikagesti, rigning og kalsi og víst var að mörgum í röðinni var orðið kalt.

Boðað hafði verið að opnað yrði inn á svæðið klukkan fjögur en þrátt fyrir að öryggisgæsla virðist ákaflega vel skipulögð dróst eilítið að fólki væri hleypt inn. Yfiröryggisvörðurinn lagði línurnar og hélt ræðu yfir þeim sem mættir voru, hvaða reglum bæri að fylgja. Svo var hleypt inn og eftirvæntingin leyndi sér hvergi. Hins vegar vakti athygli hversu vel gekk og tónleikagestir prúðir þegar þeir streymdu á svæðið.

Vísir hefur verið með beina útsendingu og verður svo áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×