Ég fékk martröð í nótt. Ég var Major Tom í laginu SpaceOddity hans David Bowie. Ég var í geimflaug sem var verið að fara að skjóta upp. Ég átti að fara út í geim að athuga hvort aðrar plánetur væru lífvænlegar fyrir okkur. Ef þessi jörð skyldi klikka. Þið vitið út af loftslagsbreytingunum og allt það.
„Takeyourproteinpillsandputyour helmet on.“ Mér leist ekki á blikuna að þurfa að fara út í óvissuna. Ísland var að enda við að skrifa undir Parísarsamkomulagið. Yrði þá ekki bara allt í lagi? Hækkun hitastigs jarðar yrði undir 1,5° C og allt í góðu? Nei, það er víst ekki nóg að skrifa bara undir fallegar viljayfirlýsingar. Það þarf að grípa til að gerða til að ná árangri. Auðlindir jarðarinnar eru ekki ótæmandi og við getum ekki haldið áfram að haga okkur eins og við höfum gert. Loftgæði hafa minnkað, vatn er víða af skornum skammti og moldin eyðist hratt. Hafið heldur áfram að súrna og fyllast af plasti. Bæði stærri plastdrasli og litlum plastögnum sem ógna lífríkinu og komast inn í hringrás vistkerfisins.
„Commencingcountdown, engines on.“ En hvaða aðgerða?
„Ten“ Ekki fara út í olíuleit og olíuvinnslu. Ok, lítið mál að hætta við það sem aldrei hefur verið byrjað á.
„Nine“ Lækka skatta á allt vistvænt til að stýra hegðun neytenda í vistvæna átt.
„Eight“ Efla innlenda matvælaframleiðslu með því að styrkja sjálfbæran landbúnað.
„Seven“ Draga úr matarsóun.
„Six“ Banna innflutning á bílum sem nota jarðefnaeldsneyti og snarfjölga bílum og skipum sem nota endurnýjanlega orkugjafa. Leyfa ráðherrunum að sýna gott fordæmi þar með ráðherrabílunum sínum.
„Five“ Endurheimta votlendi, og röskuð vistkerfi í gegnum vistheimt og skóggræðslu.
„Four“ Styrkja umhverfisvitund og vistlæsi svo við getum öll sýnt ábyrgð í umhverfismálum og dregið úr mengun og auðlindasóun.
„Three“ Halda grænt bókhald, svo við vitum hvað við erum að losa af gróðurhúsalofttegundum, og endurnýja markmiðin reglulega miðað við framþróun.
„Two“ Tryggja góðar almenningssamgöngur og byggja upp innviði fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur.
„One“ Nýting á auðlindum verði alltaf tekin með umhverfis- og náttúruverndargleraugum með sjálfbærni og fræðilega þekkingu að leiðarljósi.
„Liftoff“ Þetta og svo margt annað er hægt að gera. Það er ekki of seint að bregðast við.