Fótbolti

Mourinho ánægður með innkomu Rooney

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan Ibrahimovic fagnar með Wayne Rooney eftir markið í gærkvöldi.
Zlatan Ibrahimovic fagnar með Wayne Rooney eftir markið í gærkvöldi. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hrósaði Wayne Rooney, fyrirliða liðsins, fyrir innkomu hans í Evrópudeildarleiknum gegn Zorya frá Úkraínu í gærkvöldi. United vann leikinn, 1-0.

Staðan var 0-0 þegar fyrirliðinn kom inn á en hann lagði upp sigurmarkið á skondinn hátt á 69. mínútu. Hann ætlaði að skora sjálfur en fékk boltann í hnéð þaðan sem hann fór hátt upp í loftið og inn á markteiginn þar sem Zlatan Ibrahimovic stangaði boltann í netið.

United er nú með þrjú stig í þriðja sæti riðilsins eftir óvænt tap gegn Feyenoord á útivelli í fyrstu umferð riðlakeppninnar. United spilaði alls ekki vel í leiknum í gærkvöldi en liðið fékk það sem það þurfti þegar Rooney kom inn á, að mati Mourinho.

„Við spiluðum ekkert stórkostlega,“ viðurkenndi José Mourinho á blaðamannafundi eftir leik en United var þó miklu meira með boltann og fékk fleiri færi. Marcus Rashford skaut meðal annars í slána í fyrri hálfleik.

„Rooney hló eftir leik og sagðist hafa gefið frábæra stoðsendingu. En í alvöru gaf hann mér það sem liðinu þurfti þegar hann kom inn á sem var að fá fleiri inn inn í teiginn.“

„Rooney er meiri framherji en Juan Mata og Juan var meira að sækja út á kantana. Anthony Martial kom líka með ferskleika inn og vildi reyna að drepa leikinn. Það tókst ekki en það sem hann gerði var gott,“ sagði José Mourinho.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×