Erlent

Döpur yfir því að svona athugasemdir viðgangist í samfélaginu

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Nancy O'Dell, meðstjórnandi þáttarins Entertainment Tonight, er konan sem Trump talaði um í myndbandinu.
Nancy O'Dell, meðstjórnandi þáttarins Entertainment Tonight, er konan sem Trump talaði um í myndbandinu. MYND/GETTY
Nancy O‘Dell, gifta konan sem Donald Trump sagðist hafa reynt við í myndbandi sem var lekið nú á dögunum, hefur tjáð sig opinberlega um ummæli hans.

Myndbandið hefur vakið heimsathygli frá birtingu þess og hafa áhrifamiklir repúblikanar dregið stuðning sinn við Trump til baka vegna þess. Í myndbandinu hreykti Trump sér meðal annars af því að komast upp með að káfa á konum og kyssa þær vegna þess að hann væri „stjarna“. 

„Ég dregst bara sjálfkrafa að fallegum konum. Ég byrja bara að kyssa þær, eins og segull. Bara kyssi þær. Ég bíð ekki einu sinni. Þegar þú ert stjarna leyfa þær þér það. Þú getur gert hvað sem er. Gripið í píkuna á þeim. Þú getur gert hvað sem er,“ sagði Trump í myndbandinu.

Hann talaði einnig um konu sem hann hefði reynt ákaflega að sænga hjá, án árangurs, en sú kona er áðurnefnd Nancy O'Dell. 

„Ég reyndi við hana en það tókst ekki. Ég viðurkenni það,“ sagði Trump um O‘Dell í myndbandinu. „Hún var gift,“ bætti Trump við og sagðist jafnframt hafa farið með konunni í verslunarleiðangur til þess að aðstoða hana við kaup á húsgögnum.

O’Dell gaf út yfirlýsingu um málið í Entertainment Tonight en hún er meðstjórnandi þáttarins. 

„Án alls tillits til stjórnmála, þá er ég döpur yfir því að svona athugasemdir viðgangist yfirhöfuð ennþá í samfélaginu. Þegar ég heyrði athugasemdir [Trumps] í gær voru mikil vonbrigði að heyra slíka hlutgervingu á konum,“ sagði O‘Dell í þættinum. Að hennar mati þarf orðræðan að breytast enda ætti engin kona, eða nokkur manneskja, að verða að umfjöllunarefni af þessu tagi, jafnvel þegar engar myndavélar eru nærri.

Donald Trump hefur beðist afsökunar á ummælum sínum en hann fullyrti að ummælin endurspegluðu ekki hans innri mann. Ljóst þykir þó að myndbandið komi til með að hafa skaðleg áhrif á Trump en kosningar til Bandaríkjaforseta munu fara fram 8. nóvember næstkomandi.

Myndbandið má sjá í heild sinni hér að neðan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×