Sport

Féll á lyfjaprófi en hefur aldrei verið vinsælli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Therese Johaug.
Therese Johaug. Vísir/Getty
Slæm auglýsing er oft betri en engin auglýsing. Þetta á svo sannarlega við þegar kemur að norsku skíðagöngukonunni Therese Johaug.

Það fór ekki framhjá mörgum þegar Therese Johaug var hágrátandi á blaðamannafundi í síðustu viku þegar hún hitti fjölmiðla í fyrsta sinn eftir að hún féll á lyfjaprófi.

Tár Johaug virðast hafa haft mikil áhrif á norsku þjóðina. Sala á vörum kenndum við Therese Johaug hefur nefnilega tekið mikinn kipp eftir að lyfjahneykslið hennar varð gert opinbert.

„Þetta var frábær söluhelgi fyrir vefverslun Johaug. Þetta er besta helgi okkar frá upphafi,“ sagði Øystein Bråta við NRK. Hann er yfirmaður Active Brands sem sér um vörumerkið Johaug.

„Fólk kann að meta Johaug og vill sína sinn stuðning með því að kaupa vörur tengdum hennar. Þetta mál hefur líka verið risastór auglýsing fyrir hana og hennar vörur,“ sagði Øystein Bråta.

Therese Johaug er 28 ára gömul og hefur unnið átta gull og alls fjórtán verðlaun á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum. Hún vann silfur og brons á Ólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi 2014.

Það var því mikið áfall fyrir norskar íþróttir þegar hún féll á lyfjaprófi en ólöglega lyfjanotkun hennar má rekja til þess að hún notaði sérstak krem á varirnar þegar hún glímdi við mikinn varaþurrk í æfingabúðum.

Øystein Bråta óttast það hinsvegar að Johaug verði gleymd og grafin ef hún verður dæmd í keppnisbann sem er mjög líklegt. „Það mun hafa slæm áhrif. Fólk mun ekki vilja hafa neitt með hennar vörur að gera. Vörumerkið mun bíða hnekki,“ sagði Øystein Bråta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×