Fótbolti

Blikastúlkur náðu jafntefli í Svíþjóð en það var ekki nóg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikastelpur stóðu sig vel í kvöld.
Blikastelpur stóðu sig vel í kvöld. Vísir/Eyþór
Breiðablik er úr leik í Meistaradeildar kvenna í fótbolta þrátt fyrir að hafa náð marklausu jafntefli í seinni leiknum á móti sænsku meisturunum í Rosengård í kvöld.

Rosengård vann fyrri leikinn 1-0 í Kópavogi og þetta eina mark kom liðinu áfram í sextán liða úrslitin.

Þetta er í fyrsta sinn síðan haustið 2012 sem íslensk kvennalið tapar ekki í leik í 32 liða úrslitun Meistaradeildarinnar en íslensku liðinu voru fyrir þennan leik búin að tapa átta leikjum í röð á þessu stigi keppninnar.

Eina markið í leikjunum tveimur kom strax á áttundu mínútu í fyrri leiknum og Blikar héldu því hreinu í 172 mínútur sem er athyglisverður árangur hjá íslensku stelpunum.

Hin brasilíska Marta spilaði þar með tvo leiki á móti Blikum án þess að skora en sænska landsliðskonan Lotta Schelin skoraði eina markið í fyrri leiknum.

Breiðablik varð hinsvegar að skora og vinna til að slá sænska liðið út en það tókst ekki. Tímabilið er því á enda hjá Breiðablikskonum.

Sonný Lára Þráinsdóttir stóð sig vel í marki Blika en hún varði alls níu skot frá leikmönnum Rosengård í leiknum þar á meðal þrjú frá Mörtu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×