Skoðun

Launalögga ASÍ

Guðríður Arnardóttir skrifar
Þann 19. september var skrifað undir samkomulag um breytingu á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna. Það samkomulag átti að ramma inn frumvarp um breytingar á lögum lagt fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi. Forystufólk opinberu stéttarfélaganna skrifaði undir samkomulagið í trausti þess að öll réttindi núverandi sjóðsfélaga væru tryggð og óbreytt.

Samræmt lífeyriskerfi er skynsamlegt og um það er ekki deilt, en dettur nokkrum í hug að það ágæta fólk sem hefur forystu í stéttarfélögunum hafi skrifað með bros á vör undir samkomulag sem rýrir réttindi umbjóðenda?

Góðu heilli var fyrirliggjandi frumvarp ekki afgreitt á Alþingi því það var ekki í anda samkomulagsins frá 19. september.

Svik, segir forseti ASÍ.

Ég virði baráttu ASÍ fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna. ASÍ hefur átt frumkvæði að mörgum góðum málum til handa launþegum almennt. En á sama tíma bið ég forseta ASÍ að virða stöðu annarra stéttarfélaga og sýna þeirra baráttu sömu virðingu.

Hingað til hefur ASÍ lítið umburðarlyndi haft fyrir því ef laun sumra stétta opinberra starfsmanna hækka meira en á almennum markaði. Þá er hótað öllu illu og „launalöggan“ sér til þess að okkar viðsemjendur hugsa sig um tvisvar áður en þeir rétta af kjör opinberra starfsmanna af ótta við að styggja forystu annarra launþega. Og er það þá virkilega þannig að forysta ASÍ berjist fyrir lægri launum opinberra starfsmanna? Og fyrir skertum lífeyrisréttindum þessa sama hóps?

Ég bið forseta ASÍ að hafa það í huga að opinberir starfsmenn hafa verið, og eru enn, lægra launasettir en kollegar þeirra á almennum markaði. Samræming lífeyrisréttinda á almennum og opinberum markaði má ekki fela í sér réttindaskerðingu þeirra sem hafa búið við lægri laun í þeirri vissu að betri lífeyrisréttindi séu í það minnsta verðmæti sem ekki verði frá þeim tekin. Það getur því aldrei nokkurn tímann skapast sátt um breytingar á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna eigi það að fela í sér skerðingu á réttindum núverandi sjóðfélaga. Og rétt er auðvitað, áður en lengra er haldið, að leiðrétta laun opinberra starfsmanna. Þegar sú vegferð hefst verður það vonandi án þess að launalögga ASÍ hóti öllu illu.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×