Skoðun

Það þarf reynslu og hæfni - XS

Árni Páll Árnason skrifar
Í kosningunum um næstu helgi stefnir allt í að breytingar verði á landsstjórninni og að núverandi stjórnarflokkar missi meirihluta sinn. Spár benda til að allt að 40 þingmenn af 63 verði nýir þingmenn. Mikill samhljómur er milli þeirra flokka sem að líkum verða í meirihluta og valið er því erfitt fyrir kjósendur. Við í Samfylkingunni minnum á að við þessar aðstæður skiptir reynsla af landsstjórn og stjórn stórra sveitarfélaga öllu máli.

Umbótaöfl á Íslandi hafa af því bitra reynslu að hafa miklar vonir um breytingar en upplifa svo að sundrung og reynsluleysi kemur í veg fyrir að þjóðþrifamál náist fram, andspænis fyrirstöðu valdakerfis og hagsmunaaðila. Það skiptir líka máli að flokkar geti tekist á við erfið mál sem upp koma, þótt þau séu ekki til skammtímavinsælda fallin.

Við í Samfylkingunni búum að 100 ára sögu samfélagsumbóta, viljum breytingar og höfum reynslu af því að koma breytingum í gegn af ákveðni, en í víðtækri sátt. Hreyfing jafnaðarmanna getur stært sig af því að koma á almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, verkamannabústöðum, almennum fræðslulögum og stærstu áföngunum í kvenfrelsisbaráttu og náttúruvernd. Við náðum líka í ríkisstjórnartíð okkar í hruninu að leiða farsæla efnahagsstjórn, tryggja frið á vinnumarkaði, forðast að ríkisvæða tap fjármálafyrirtækja og einstaklinga og byggja upp samningsstöðu gagnvart erlendum kröfuhöfum. Á sama tíma vörðum við velferðarútgjöld öðru fremur svo eftir hefur verið tekið um allan heim. Og við réðumst í stórfellda uppbyggingu hjúkrunarrýma um allt land, sem aldrei hafði verið fé til að byggja á góðæristímum undir annarra stjórn. Við höfum líka öðlast reynslu af því að ná breytingum ekki í gegn og að þurfa að sætta okkur við áfangasigra.

Það sem mestu skiptir er að við höfum lært finna færa leið og feta hana og alltaf sett almannahagsmuni framar sérhagsmunum og stundarvinsældum í öllum okkar verkum. Við erum stolt af okkar arfleifð og erum alltaf jafnaðarmenn – ekki bara fyrir kosningar.

Samfylkingin býður upp á reynslu og hæfni við stjórn landsins. Við ráðum við erfiðu málin og treystum okkur til að nálgast þau af sanngirni og ábyrgð og leita víðtækrar samstöðu um niðurstöðu í almannaþágu. Við biðjum um stuðning þinn í kosningunum á laugardag, til að tryggja Samfylkingunni og slíkri nálgun áhrif við landsstjórnina á næsta kjörtímabili.








Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×