Handbolti

Aron bjartsýnn á að ná HM í Frakklandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson er bjartsýnn á að geta verið með íslenska handboltalandsliðinu á HM í Frakklandi sem hefst 12. janúar.

Aron, sem leikur með Veszprém í Ungverjalandi, hefur verið frá vegna nárameiðsla í fjórar vikur. Hann segist þó vera á batavegi.

„Þetta eru þreytt meiðsli og maður þarf alveg að ná sér. Þetta lítur ágætlega út. Ég er bjartsýnn og treysti þessu teymi sem er hérna heima til að ná mér góðum fyrir HM,“ sagði Aron í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Gaupi hitti Aron í Hörpu þar sem Íþróttamaður ársins 2016 var útnefndur. Aron endaði í 8. sæti í kjörinu. Hann hefur verið hér á landi undanfarnar vikur í meðhöndlun hjá læknateymi landsliðsins.

Íslenska liðið hefur ekki sýnt sitt rétta andlit í undanförnum leikjum. Þrátt fyrir það er Aron bjartsýnn á gott gengi í Frakklandi.

„Mér finnst þetta ekki eins slæmt og talað er um. Við erum að móta okkur upp á nýtt og það tekur sinn tíma. Það hafa bara verið fjórir leikir síðan Geir [Sveinsson] tók við. Ég held að við náum að toppa á réttum tíma á HM,“ sagði Aron og bætti því við að markmið Íslands væri að komast upp úr sínum riðli og í 16-liða úrslitin.

Aron hefur verið í stóru hlutverki í íslenska liðinu undanfarin ár. Hlutverkið er þó orðið enn stærra eftir að reynslumiklir leikmenn lögðu landsliðsskóna á hilluna. Aron tekur aukinni ábyrgð fagnandi.

„Það eru nokkrir reynsluboltar sem eru hættir og þá leggst þetta kannski aðeins meira á mig. Ég tek því fagnandi, ég held að það sé eitthvað sem alla dreymir um, að fá sem stærst hlutverk í sínu landsliði,“ sagði Aron.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Geir sker niður um fimm

Geir Sveinsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, hefur valið 23 leikmenn til undirbúnings fyrir HM í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×