Fótbolti

Höskuldur: Gegnsæi vantar hjá KSÍ

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Höskuldur ræðir við fréttamenn í Alþingishúsinu.
Höskuldur ræðir við fréttamenn í Alþingishúsinu. vísir/Ernir
Höskuldur Þórhallsson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, segist enga ákvörðun hafa tekið um hvort hann muni bjóða sig fram til embættis formanns KSÍ.

Guðni Bergsson og Björn Einarsson hafa ákveðið að bjóða sig fram en núverandi formaður, Geir Þorsteinsson, mun ekki sækjast eftir endurkjöri.

„Ég hef verið í sambandi við fótboltafélög víðsvegar um landið og þau hafa lýst yfir áhuga að styðja mig í þetta embætti,“ sagði Höskuldur í samtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni á X-inu 977.

„Þau hafa áhyggjur af stöðu knattspyrnunnar á landsbyggðinni og vilja formann utan af landi til að brúa þá gjá,“ sagði hann enn fremur.

Hann segist vilja halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið hjá KSÍ síðustu árin.

„En það er hægt að gera það faglegra en það er í dag. Ég finn á þeim sem ég ræði við að KSÍ hefur skort að hafa hlutina uppi á borðum. Að það hafi ekki ríkt nægilegt gegnsæi í ákvörðun sem þar hafa verið teknar. Þrátt fyrir það hafa hlutirnir gengið vel.“

Höskuldur á von á því að gefa út yfirlýsingu um framhaldið fyrr en síðar en ítarlegt viðtal við hann má heyra í Akraborginni sem hefst klukkan 16.00 í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×