Handbolti

Dagur byrjaði lokaundirbúninginn á stórsigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins, fylgist með sínum mönnum í kvöld.
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins, fylgist með sínum mönnum í kvöld. Vísir/Getty
Þýska handboltalandsliðið vann níu marka sigur á Rúmeníu í kvöld, 30-21, í fyrri æfingaleik sínum af tveimur fyrir Heimsmeistaramótið í Frakklandi sem hefst í næstu viku.

Lærisveinar Dags Sigurðsson mæta til leiks sem ríkjandi Evrópumeistarar og bronsverðlaunahafar frá síðustu Ólympíuleikum.

Það var aðeins jafnt í byrjun en í stöðunni 5-5 skoruðu Þjóðverjar þrjú mörk í röð og voru síðan komnir átta mörkum yfir fyrir hálfleik, 17-9.

Sigur þýska liðsins var síðan aldrei í hættu í seinni hálfleiknum og að lokum munaði níu mörkum á liðunum.

Þýska liðið mætir síðan lærisveinum Patreks Jóhannessonar í austurríska landsliðinu í lokaleik sínum fyrir heimsmeistaramótið.

Þetta verður annað heimsmeistaramót þýska liðsins undir stjórn Dags en liðið varð í sjöunda sæti á HM í Katar fyrir tveimur árum. Dagur stýrir jafnframt þýska landsliðinu í síðasta sinn á þessu móti því hann er að fara að taka við japanska landsliðinu.

Fyrsti leikur þýska landsliðsins á HM í Frakklandi verður á móti Ungverjalandi 13. janúar næstkomandi en liðið er einnig með Króatíu, Hvíta-Rússlandi, Síle og Sádí Arabíu í riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×