Handbolti

Frakkar ætla að reyna við nýtt áhorfendamet

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Nikola Karabatic, leikmaður Frakka.
Nikola Karabatic, leikmaður Frakka. vísir/getty
Frakkar eru stórhuga í aðdraganda HM í handbolta og ætla sér að slá metið yfir flesta áhorfendur á einum leik á heimsmeistaramóti.

Metið er 25 þúsund áhorfendur og það met var sett á Cairo Stadium árið 1999 er Svíþjóð og Rússland léku til úrslita á HM í Egyptalandi. Ótrúlegur leikur sem Svíþjóð vann 25-24 þó svo Magnus Wislander hefði fengið rautt spjald í leiknum.

Spilað verður á knattspyrnuvellinum Stade Pierre Mauroy í Lille á HM og vonir standa til að metið falli í átta liða úrslitum keppninnar.

Þá verður völlurinn klár í að taka á móti 27.500 áhorfendum og stefnan er að Frakkar spila í átta liða úrslitunum í Lille. Þá skal fylla kofann.

Í nóvember var búið að selja yfir 300 þúsund miða á HM en 550 þúsund miðar eru í boði.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig þessa stórkostlega mannvirki er breytt fyrir tónleika en svipað verður gert til þess að koma fyrir handboltavelli í mannvirkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×