Handbolti

Guðjón: Sjúkrateymið fær að strjúka okkur aðeins núna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
„Þetta er mjög kærkominn sigur. Mér fannst þetta svolítið langdregið á köflum,“ sagði fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson sem hljóp yfir Angólana í fyrri hálfleik og skoraði þá átta mörk.

„Tvö stig í hús, náðum í nokkur mörk í plús og nú er það bara leikurinn gegn Makedóníu sem að telur.“

Guðjón segir að það sé mjög sérstakt að spila við lið eins og Angóla sem er ekki beint hefðbundið handboltalið.

„Það var gaman að ná mörgum hraðaupphlaupum og ágætt að nota þetta sem smá hlaupaæfingu. Lappirnar virka en ég hefði auðvitað viljað gera betur í þeim færum þar sem ég klikkaði. Þetta lið er miklu villtara en hin liðin. Getur verið erfitt að eiga við þetta því skotin eru á öðrum tempóum og markmennirnir taka hreyfingar sem maður er ekki alveg vanur. Það er hluti af þessu og gaman að sjá enn eina þjóðina koma inn í þetta.“

Strákarnir fá hvíld á morgun á meðan Makedónía þarf að spila við Spánverja.

„Við vorum með tvo leiki í röð um daginn en við fáum hvild núna og það telur er líða fer á mótið. Við erum með gott sjúkrateymi sem að strýkur okkur aðeins núna,“ segir Guðjón en býst hann við lemstruðum Makedónum?

„Ég gæti trúað því að það verði svipuð byrjun á þessu og gegn Túnis. Við höfum spilað marga leiki við Makedóníu síðustu ár og það hafa verið hörkuleikir. Svo spila þeir mikið sjö á móti sex núna og það kostar minni orku en í barningnum sex gegn sex. Auðvitað vonast maður til þess að það dragi af þeim en það breytir ekki því að við þurfum að hugsa um að þeir séu þreyttir. Við þurfum einfaldlega að spila okkar leik. Ef við náum upp sömu baráttu og bætum sóknina aðeins þá held ég að við séum í góðum málum.“

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×