Sheeran var í viðtali í morgunþætti Chris Evans á BBC 2 í gær þar sem hann talaði um ferðalag sitt um heiminn en tónlistarmaðurinn geðþekki tók sér ársfrí frá öllu til þess að ferðast um heiminn. Sheeran kom hingað til lands í febrúar á síðasta ári og hélt upp á afmæli sitt. Hann virðist hafa lent í ýmsu en líkt og Vísir greindi frá um helgina steig hann meðal annars í hver og brenndi sig.
Það virðist þó ekki hafa haft neikvæð áhrif á upplifun Sheeran af Íslandi en hann fór fögrum orðum um Ísland í þættinum. Hann var spurður hvert hann myndi ráðleggja Bretum sem eru þreyttir á hversdagslífinu að fara.
„Einn staður sem er algjörlega frábær miðað við hvað hægt er að gera þar er Ísland. Þetta er svo klikkað land og svo fallegt. Ef ég ætti að mæla með einhverjum stað til að fara á væri það Ísland,“ sagði Sheeran en hlusta má á innslagið hér að neðan.