Skoðun

Um kennara í nýjum stjórnarsáttmála

Guðríður Arnardóttir skrifar
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar segir m.a:

Nauðsynlegt er að efla kennaramenntun til að bregðast við fækkun kennara og minnkandi aðsókn í kennaranám fyrir leikskóla og grunn- og framhaldsskóla.

Ég vil benda á að kennaramenntun á Íslandi er ágæt. Auðvitað má alltaf gera betur en eins og þetta hljómar í stjórnarsáttmálanum má skilja það þannig að til þess að auka aðsókn í kennaranám verið að efla menntunina.

Kennaramenntun er að lágmarki 5 ár á öllum skólastigum. Einungis fólk með meistaragráðu í sínu fagi getur hlotið starfheitið leik-, grunn- eða framhaldsskólakennari.

Fagmennska í skólastarfi hefur aukist verulega á liðnum árum og þá sérstaklega kennslufræðileg nálgun. Ungir kennarar í dag eru vel menntaðir og hæfir.

Það hefur sannarlega gengið illa að manna kennarastöður í leikskólum landsins og hlutfall kennara í starfsliði leikskólanna er langt undir viðmiðum. Að sama skapi má líta til grunnskólans en þar er nýliðun sáralítil. Stéttin eldist hratt og á það við kennara á öllum skólastigum.

Ég vil benda nýrri ríkisstjórn á að einhverjar breytingar á fyrirkomulagi menntunar kennara munu ekki leiða til þess að leysa viðvarandi manneklu í skólakerfinu.

Starfsumhverfi og auðvitað fyrst og fremst laun er lykillinn að lausn málsins – verði laun kennara færð til betri vegar og gerð samkeppnishæf við laun stétta með sambærilega menntun er viðbúið að áhugi ungs fólks á kennarastarfinu aukist.

Það er nefnilega gaman að vera kennari, reyndar með því skemmtilegra sem hægt er að taka sér fyrir hendur, en eins og launasetning kennara hefur verið fram til þessa sér ungt fólk ekki fram á að geta framfleytt sér á kennaralaununum.

Svo ráð mitt til nýrrar ríkisstjórnar er þetta:

Hækkið laun kennara, búið vel að skólakerfinu og sjá; vandamálið mun leysast.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×