Handbolti

Ólafur: Var erfitt að gera leik úr þessu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur í leiknum í kvöld.
Ólafur í leiknum í kvöld. Vísir/EPA
Ólafur Guðmundsson spilaði vel gegn Frökkum í kvöld en það var ekki nóg þegar strákarnir okkar féllu úr leik í 16-liða úrslitum á HM í handbolta. Frakkland vann að lokum sex marka sigur, 31-25.

„Þetta var þungt hjá okkur í seinni hálfleik. Samt var ekkert við fyrri hálfleikinn sem gaf til kynna að þeir myndu gera eitthvað erfitt fyrir okkur,“ sagði Ólafur eftir leikinn.

„En þeir leystu vel úr sínum málum í hálfleik og komust 4-5 mörkum yfir. Þá var erfitt fyrir okkur að gera leik úr þessu en mér fannst samt vel gert að minnka muninn í þrjú mörk eins og við gerðum þegar sjö mínútur voru eftir,“ sagði Ólafur enn fremur.

Hann segir erfitt að útskýra hvað hafði gerst á upphafsmínútum síðari hálfleiks. „Kannski var það svipað og gegn Spáni. Við vorum að spila frábærlega en það vantar að fylgja því eftir og klára dæmið. Við náðum ekki að fylgja þessu eftir.“

Ólafur segir að það hafi verið sérstaklega gaman að spila þennan leik, fyrir framan svo marga áhorfendur. „Maður er svo sem ekkert mikið að spá í hvað það voru margir á leiknum. Það var bara mikið og svo er þetta bara venjulegur handboltavöllur með öllu tilheyrandi. Maður reynir bara að gera sitt besta.“

Ólafur átti magnaðan leik í fyrri hálfleik í kvöld, en það dró aðeins undan honum í síðari hálfleik. Hann segist ágætlega sáttur við frammistöðu sína á mótinu.

„Þetta var upp og niður eins og gengur og gerist og var hjá öllu liðinu. Mér fannst við spila frábæra vörn stærstan hluta mótsins og markvarslan var í takti við það. Við þurfum að nýta okkur það í að skora fleiri auðveld mörk. Við megum vinna betur í sóknarleiknum en það eru góðir og slæmir kaflar í þessu hjá okkur. Maður fær kannski betri yfirsýn í þetta nú þegar mótið er búið fyrir okkur.“

Hann segir að það sé frábær stemning í íslenska landsliðshópnum og hann kvíðir ekki framtíðinni. „Við reynum að taka það sem við gerðum vel og byggja á því. Það eru margir nýir strákar í liðinu og það eru bjartir tímar fram undan hjá okkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×