Handbolti

Björgvin Páll: Lofaði Gunnleifi að halda hreinu í dag

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Markverðirnir verða sem fyrr í sviðsljósinu í dag og þeirra bíður ekki auðvelt verkefni frekar en annarra. Björgvin Páll Gústavsson var byrjaður að undirbúa sig í gær er hann kom til Lille.

„Það er skemmtilegt að undirbúa sig og skemmtilegt efni að horfa á. Enn skemmtilegra að horfa á video með skemmtilegan hóp í kringum þig,“ segir Björgvin Páll jákvæður sem fyrr en er hann búinn að læra allar skotleiðir Frakkanna?

„Ég held ég haldi hreinu í þessum leik. Ég var búinn að lofa Gunnleifi Gunnleifssyni markverði fótboltalandsliðsins því. Ég ætla að standa við það.“

Það er mikil reynsla og gæði í franska liðinu í öllum stöðum.

„Þeir eiga tvo þrjá menn í hverja stöðu. Þeir geta sem betur fer bara spilað á einum í einu. Við verðum með allt klárt hjá okkur. Þetta er geggjað verkefni sem við vonandi náum að klára,“ segir Björgvin en er undirbúningurinn eitthvað öðruvísi fyrir þennan leik?

„Hann er svipaður. Það sem er öðruvísi eru gæðin í liði Frakka og hvað það eru margir leikmenn sem við þurfum að skoða. Við erum líka að fókusa á okkar leik. Erum að fá á okkur 24 mörk í leik sem er gott og við þurfum að halda Frökkunum í nágrenni við þá tölu. Ef þeir fara langt yfir 30 mörkin þá verður þetta ansi erfitt fyrir sóknina okkar.“

Lætin í höllinni í kvöld verða líklega rosaleg. Hvernig heldur Bjöggi að það verði að heyra lætin eftir mark frá Karabatic og hann þarf að sækja boltann í netið?

„Ég held það muni hvetja mig til þess að verja næsta skot. Mótlæti hefur alltaf verið eitthvað fyrir okkur Íslendingana. Því fleiri sem eru á móti því meira berjumst við. Kannski endum við á að taka Húh-ið fyrir þessa áhorfendur þegar leikurinn er búinn.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Allt undir á stærsta sviði í sögu HM

Það verður væntanlega sett áhorfendamet þegar Ísland spilar við Frakkland í 16-liða úrslitum á HM. Leikurinn fer fram á knattspyrnuleikvangi sem er búið að breyta í handboltahöll. Von er á um 28.000 manns.

Ásgeir: Frakkarnir bera mikla virðingu fyrir okkur

Ásgeir Örn Hallgrímsson er búinn að spila í Frakklandi í fimm ár og þekkir því vel til í frönskum handbolta. Hvað segir hann um umfjöllunina um mótið hérna í Frakklandi?

Aron Rafn veikur | Allir aðrir æfa

Strákarnir okkar eru nú á leið á æfingu á fótboltavellinum glæsilega Stade Pierre-Mauroy en það verður mikil upplifun fyrir þá að koma þangað inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×