Handbolti

Danir kláruðu riðilinn með fullu húsi stiga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur og félagar mæta Ungverjum í 16-liða úrslitunum á sunnudaginn.
Guðmundur og félagar mæta Ungverjum í 16-liða úrslitunum á sunnudaginn. vísir/getty
Guðmundur Guðmundsson stýrði Dönum til sigurs á Katurum í lokaleik liðsins í D-riðli heimsmeistaramótsins í handbolta í kvöld. Lokatölur 29-32, Danmörku í vil.

Danir voru búnir að tryggja sér toppsætið í D-riðli fyrir leikinn og Guðmundur gat því leyft sér að hvíla lykilmenn í kvöld. Niklas Landin, Kasper Söndergaard, Mikkel Hansen og Henrik Toft Hansen spiluðu t.a.m. ekki mínútu í leiknum.

Jesper Nöddesbo skoraði átta mörk fyrir danska liðið sem var tveimur mörkum undir í hálfleik, 16-14. Þegar rúmar fimm mínútur voru eftir var staðan jöfn, 27-27, en þá gáfu Danir í og tryggðu sér sigurinn með 5-2 kafla.

Niclas Kirkelökke fékk tækifæri í danska liðinu í kvöld, spilaði allan leikinn og skilaði sjö mörkum úr jafnmörgum skotum. Michael Damgaard minnti einnig á sig með sex mörkum.

Danir mæta Ungverjum í 16-liða úrslitunum í Albertville á sunnudaginn.

Í hinum leik kvöldsins vann Hvíta-Rússland tveggja marka sigur á Ungverjalandi, 27-25.

Með sigrinum tryggðu Hvít-Rússar sér 3. sætið í C-riðli og leik gegn Svíum í 16-liða úrslitunum.

Barys Pukhouski og Ivan Brouka skoruðu sex mörk hvor fyrir Hvíta-Rússland.

Adam Juhasz og Gabor Csaszar gerðu báðir sjö mörk fyrir Ungverjaland sem mætir Danmörku í 16-liða úrslitunum eins og áður sagði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×