Handbolti

Gott fyrir vítanýtinguna að vera með íslenskan þjálfara á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hanes skorar úr einu af sex vítum Dana á HM.
Mikkel Hanes skorar úr einu af sex vítum Dana á HM. Vísir/AFP
Strákarnir okkar hafa nýtt vítin sín vel á HM í handbolta í Frakklandi og til þessa hafa aðeins fimm lið nýtt vítin sín betur á mótinu.

Íslensku vítaskytturnar hafa nýtt 14 af 17 vítum sínum sem þýðir 82 prósent vítanýtingu og sjötta sætið á listanum.

Aðeins tveir leikmenn hafa tekið víti fyrir Ísland á HM. Guðjón Valur hefur nýtt 7 af 10 vítum sínum en nýliðinn Ómar Ingi Magnússon er með hundrað prósent vítanýtingu (7 af 7).

Það er greinilega gott fyrir vítanýtinguna að hafa íslenskan þjálfara því liðin fjögur sem eru með íslenskan þjálfara eru öll inn á topp sex í vítanýtingu það sem af er mótinu.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í danska landsliðinu hafa nýtt öll vítin sín á mótinu en ekkert annað lið getur státar það. Það vekur hinsvegar athygli að Danir hafa aðeins fengið samtals sex víti á öllu mótinu sem er sem dæmi ellefu færri víti en hjá Íslandi og fimmtán færri víti en Þjóðverjar hafa fengið.

Strákarnir hans Dags Sigurðssonar í Þýskalandi hafa nýtt 19 af 21 víti sínu og skipa annað sætið á listanum með 90 prósent vítanýtingu.

Svíar, sem Kristján Andrésson þjálfar, eru síðan í fjórða sæti með 88 prósent vítanýtingu (14 af 16).

Þetta hefur verið skelfilegt heimsmeistaramót fyrir Pólverja og slæm vítanýting er enn ein birting þess. Pólverjar eru eina liðið sem hefur ekki náð að nýt helming víta sinna en aðeins 7 af 15 vítum þeirra hafa endað í markinu (47 prósent).

Besta vítanýting liða á HM í handbolta í Frakklandi

(Til og með 19. Janúar)

1. Danmörk 100 prósent (6 af 6)

2. Þýskaland 90 prósent (19 af 21)

3. Makedónía 89 prósent (17 af 19)

4. Svíþjóð 88 prósent (14 af 16)

5. Rússland 86 prósent (19 af 22)

6. Ísland 82 prósent (14 af 17)

7. Ungverjaland 79 prósent (11 af 14)

7. Brasilía 79 prósent (11 af 14)

9. Slóvenía 78 prósent (18 af 23)

10. Angóla 77 prósent (10 af 13)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×