Skoðun

Pólitískar jarðsprengjur auðlindanna

Katrín Olga Jóhannesdóttir skrifar
Í dag fer Viðskiptaþing fram í 41. sinn. Þingið í ár er sérstakt fyrir margar sakir en Viðskiptaráð, sem áður hét Verzlunarráð, fagnar aldarafmæli á árinu.

Framleiðni og nýting aðalatriði

Yfirskrift þingsins í ár er „Börn náttúrunnar – framtíð auðlindagreina á Íslandi“ og verður þar sérstaklega fjallað um sjávarútveg, ferðaþjónustu og orkugeirann. Ísland stendur framarlega í alþjóðlegum samanburði innan allra þessara atvinnugreina. Í dag verður horft enn frekar fram á veginn því þrátt fyrir góðan árangur eiga auðlindagreinar á Íslandi sóknarfæri á mörgum sviðum.

Náttúruauðlindir eru takmörkuð gæði. Þannig á stefna stjórnvalda að vera sú að hámarka þau verðmæti sem fæst fyrir þær með sjálfbærum hætti. Þetta var grundvallarmarkmiðið sem lagt var upp með í vinnu Samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem byggði á grunni McKinsey-skýrslunnar sem kom út árið 2012. Um þetta markmið erum við líklega flest öll sammála. Við viljum skapa sem mest verðmæti með sem minnstum tilkostnaði fyrir landið okkar og íbúa þess.

Verðmætasköpun verði ofan á

Það vill oft verða að umræða um auðlindagreinar á Íslandi breytist á örskotsstundu í pólitískt jarðsprengjusvæði. Eðlilegt er að fólk hafi sterkar skoðanir á þessum málum enda er velgengni atvinnugreinanna stórt hagsmunamál fyrir alla þjóðina. Verra er þegar slíkur ágreiningur dregur úr þeirri framþróun sem nauðsynleg er, líkt og tilfellið hefur verið undanfarin misseri.

Til marks um þetta er hægt að líta á framvindu þeirra umbótatillagna sem verkefnisstjórn Samráðsvettvangsins lagði fram árið 2013. Aðeins 7% tillagna sem lagðar voru fram til úrbóta á auðlindageiranum hafa verið innleiddar samanborið við 39% tillagna sem náðu til annarra greina. Meðal þessara tillagna voru gjaldtaka á ferðamannastöðum, arðbærari orkuframleiðsla og samræmd stjórnun auðlinda hjá hinu opinbera.

Þau atriði sem deilt er um í dag eiga snúa yfirleitt að skiptingu þeirra verðmæta sem eru sköpuð frekar en þeim aðstæðum sem til staðar eru til að skapa þau. Brýnasta verkefni komandi ára er að láta slíkar deilur ekki standa í vegi fyrir frekari verðmætasköpun.

Umfangið mikið en tækifærin meiri

Auðlindageirinn stendur undir 75% af útflutningstekjum Íslands og um 24% af landsframleiðslu. Utanaðkomandi aðstæður og góður árangur fyrirtækja hafa gert það að verkum að stöðugur vöxtur hefur verið á útflutningstekjum auðlindagreinanna undanfarin ár. En markvissar sóknaraðgerðir stjórnvalda hafa látið á sér standa.

Hvernig náum við að knýja fram breytingar sem hvetja til framfara í geira þar sem það eina sem fólk virðist geta verið sammála um er að vera ósammála? Þetta er meðal þeirra spurninga við munum leita svara við á Viðskiptaþingi 2017.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×