Fótbolti

Guðmundur Þórarinsson til IFK Norrköping

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Þórarinsson.
Guðmundur Þórarinsson. Vísir/Getty
Selfyssingurinn Guðmundur Þórarinsson verður kynntur í dag sem nýr leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins IFK Norrköping. Þetta kemur fram í frétt á Norrköpings Tidningar.

IFK Norrköping hefur boðað til blaðamannafundar eftir hádegið þar sem Guðmundur verður staðfestur sem nýr leikmaður liðsins. Liðið kaupir hann frá norsku meisturunum í Rosenborg.

Guðmundur er 24 ára gamall sem spilar vanalega inn á miðri miðjunni. Hann kemur frá Selfoss þar sem hann hóf ferilinn sinn en lék með ÍBV í Pepsi-deildinni áður en hann fór út í atvinnumennsku.

IFK Norrköping verður fjórða félag Guðmundar í atvinnumennsku en hann hefur áður spilað með norska félaginu Sarpsborg 08, danska félaginu Nordsjaelland og nú síðast með Rosenborg BK í eitt ár.

Guðmundur Þórarinsson spilaði 24 leiki með Rosenborg á síðustu leiktíð og hjálpaði liðnu að vinna tvöfalt.

Guðmundur hefur verið að glíma við hnémeiðsli í vetur og hefur því ekki náð að æfa að fullu.

Guðmundur verður ekki fyrsti Íslendingurinn til að spila með IFK Norrköping en nú síðast léku með liðinu Arnór Ingvi Traustason, Jón Guðni Fjóluson, Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Garðar Gunnlaugsson.

Arnór Ingvi var seldur til Austurríkis síðasta sumar eftir að hafa hjálpað liðinu að vinna sænska meistaratitilinn 2015 en Jón Guðni er enn hjá félaginu eftir að hafa komið til liðsins í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×