Fótbolti

Strákarnir fengu engin Laureus-verðlaun: Töpuðu fyrir Nico Rosberg og Barca-börnum

Engin verðlaun þetta árið.
Engin verðlaun þetta árið. vísir/epa
Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í fótbolta fóru tómhentir heim frá hinum virtu Laureus-verðlaunum í Mónakó í kvöld. Íselenska liðið var tilnefnt til tveggja verðlauna en fékk hvorug.

Í flokknum framfarir ársins eða Breakthrough of the Year töpuðu strákarnir okkar fyrir þýska Formúlukappanum Nico Rosberg sem varð heimsmeistari í fyrsta skipti síðasta haust.

Íslenska landsliðið var vitaskuld tilnefnt fyrir frammistöðuna sína á Evrópumótinu í fótbolta þar sem það heillaði heiminn á leið sinni í átta liða úrslitin. Óvæntir Englandsmeistarar Leicester voru einnig tilnefndir í sama flokki sem og Rubby Seven-lið Fiji.

Í flokknum besta íþróttaaugnablik ársins eða The Laureus Best Sporting Moment of the Year töpuðu strákarnir fyrir tólf ára gömlum leikmönnum Barcelona sem vöktu verðskuldaða athygli þegar þeir hugguðu mótherja sína á krúttlegan hátt eftir leik á síðasta ári.

Þetta er nýr flokkur þar sem notast var við kosningu á netinu til að skera úr um sigurvegara og segir á Twitter-síðu Laureus-verðlaunanna að mjótt hafi verið á mununum.

Íslenska landsliðið var tilnefnt fyrir Víkingaklappið sem leikmenn tóku ásamt stuðningsmönnum eftir sigurinn eftirminnilega á Englandi í Hreiðrinu í Nice á EM síðasta sumar.

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, og Hannes Þór Halldórsson, markvörður Íslands, voru fulltrúa Íslands í Mónakó í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×