Sport

Freydís Halla komst áfram í stórsviginu á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freydís Halla Einarsdóttir og Andrea Björk Birkisdóttir.
Freydís Halla Einarsdóttir og Andrea Björk Birkisdóttir. Mynd/Fésbókarsíða Skíðasambands Íslands
Freydís Halla Einarsdóttir komst áfram úr undankeppni stórsvigs kvenna á heimsmeistaramótinu í alpagreinum sem fer fram í St. Moritz í Sviss.

Freydís Halla skíðaði frábærlega í báðum ferðum og það verður spennandi að fylgjast með henni í úrslitunum eftir þrjá daga eða á fimmtudagsmorguninn.

Freydís Halla náði níunda besta tímanum í undankeppninni en 25 af 74 keppendum komust áfram í aðalkeppnina.

Freydís Halla sýndi mikinn stöðugleika í báðum ferðum og var með ellefta besta tímann í bæði fyrri og seinni ferð.

Freydís var 1,38 sekúndum á eftir fljótustu konu í fyrri ferðinni og 0,87 sekúndum á eftir fljótustu konu í seinni ferðinni.

Freydís var samanlagt með tímann 2:01.14 mínútur en fljótasta konan var, Maria Shkanova frá Hvíta-Rússlandi, var 1,36 sekúndum fljótari en hún niður brekkuna.

Freydís Halla og Andrea Björk Birkisdóttir tóku báðar þátt í undankeppninni og eru fyrstu keppendur Íslands til að keppa á þessu heimsmeistaramóti.

Andrea Björk Birkisdóttir endaði í 30.sæti og komst ekki áfram. Hún náði þó að bæta sig í seinni ferðinni alveg eins og Freydís Halla. Andrea Björk var samanlagt á 2:08.22 mínútum en síðasta kona inn í úrslitin kom í mark á 2:05.28 mínútum.

Helga María Vilhjálmsdóttir og María Guðmundsdóttir að draga sig úr keppni áður en heimsmeistaramótið hófst vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×