Erlent

Bush vill að Trump svari spurningum um tengslin við Rússland

atli ísleifsson skrifar
George W. Bush var 43. forseti Bandaríkjanna.
George W. Bush var 43. forseti Bandaríkjanna. Vísir/afp
George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, vill að Donald Trump Bandaríkjaforseti svari spurningum um tengsl hans og nánustu samstarfsmanna hans við Rússland. Þá segir hann frjálsa og óháða fjölmiðla nauðsynlega lýðræðinu.

Bush ræddi stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum í viðtali við NBC. Sagði hann nauðsynlegt að fá á hreint hvort að rússneskir tölvuhakkarar hafi reynt að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar.

„Ég tel að við þurfum öll að fá svar,“ segir forsetinn fyrrverandi, sem kveðst þó ekki vilja taka afstöðu til hvort rétt sé að skipa sérstakan saksóknara til að halda utan um slíka rannsókn.

Í viðtalinu tekur Bush einnig skýra afstöðu með fjölmiðlum sem Trump hefur gagnrýnt harðlega að undanförnu. Bush segir frjálsa og óháða fjölmiðla hins vegar nauðsynlega lýðræðinu.

„Við þurfum fjölmiðla til að veita mönnum eins og mér aðhald,“ segir Bush og bætir við að vald geti verið vanabindandi og spillandi.

Bush segir að í valdatíð sinni hafi hann varið miklum tíma í að sannfæra Vladimír Pútín Rússlandsforseta um nauðsyn frjálsra fjölmiðla. „Það er erfitt að segja öðrum að hafa óháða og frjálsa fjölmiðla þegar við erum ekki viljug til þess sjálf.“

Sjá má myndskeið úr viðtalinu að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×