Sport

Ásynjur tryggðu sér oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/ÍHÍ Íshokkísamband Íslands
Ásynjur og Ynjur spila hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil kvenna í íshokkí eftir að Ásynjur unnu 5-3 sigur í öðrum leik liðanna á Akureyri í kvöld.  Ynjurnar hefðu tryggt sér titilinn með sigri í kvöld.

Ynjur unnu fyrsta leikinn 6-4 og voru komnar 3-1 yfir í kvöld. Ásynjur tryggðu sér oddaleik með því að skora fjögur síðustu mörk leiksins.

Úrslitaleikurinn um Íslandsmeistaratitilinn fer fram í Skautahöllinni á Akureyri á fimmtudagskvöldið.

Guðrún Viðarsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Ásynjur í kvöld en hin mörk liðsins skoruðu þær Arndís Sigurðardóttir, Guðrún Blöndal og Thelma Guðmundsdóttir. Eva Karvelsdóttir gaf tvær stoðsendingar í leiknum og þær Anna Ágústsdóttir, Birna Baldursdóttir og Jónína Guðbjartsdóttir voru með eina stoðsendingu hver.

Silvía Björgvinsdóttir skoraði öll þrjú mörkin sem Ynjurnar skoruðu í leiknum.  Teresa Snorradóttir og Ragnhildur Kjartansdóttir lögðu saman upp fyrsta markið en Kolbrún Garðarsdóttir átti stoðsendinguna í hinum tveimur.

Liðin koma bæði frá Skautafélagi Akureyrar og eru þannig saman sett að lið Ásynja er skipað leikmönnum 20 ára og eldri en lið Ynja er skipað leikmönnum yngri en 20 ára.   

Ásynjur eru ríkjandi Íslandsmeistarar auk þess sem þær tryggðu sér nýlega deildarmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×