Erlent

Kona frá Belgíu lést í árásinni í Stokkhólmi

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað í miðborg Stokkhólms skömmu fyrir klukkan 15 á föstudag að staðartíma.
Árásin átti sér stað í miðborg Stokkhólms skömmu fyrir klukkan 15 á föstudag að staðartíma. Vísir/afp
Utanríkisráðherra Belgíu hefur staðfest að belgísk kona hafi látið lífið í hryðjuverkaárásinni í Stokkhólmi á föstudag. Búið er að bera kennsl á þrjá af þeim fjórum sem létu lífið í árásinni.

Ráðherrann Didier Reynders segir frá því að belgískum yfirvöldum hafi verið upplýst um málið fyrr í dag. Belgíska blaðið Het Laatste Nieuws segir konuna hafa verið 31 árs að aldri og frá bænum Halle.

Greint var frá því í gær að ellefu ára stúlka hafi einnig verið í hópi látinna, en hún var á leið heim úr skóla þegar ekið var á hana. Skömmu fyrir árásina hafi stúlkan rætt við móður sína í síma, en stúlkan hafði þá verið um borð í neðanjarðarlest.

Lögregla mun halda fréttamannafund klukkan 10:30 að íslenskum tíma til að greina frekar frá gangi rannsóknarinnar.

39 ára Úsbeki er í haldi lögreglu, grunaður um að hafa ekið vörubíl á gangandi vegfarendur á verslunargötunni Drottninggatan í miðborg Stokkhólms á föstudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×