Skoðun

Ákallið að engu haft

Guðjón S. Brjánsson skrifar
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var ­­fyrir helgi er því slegið upp að aukning til heilbrigðisþjónustu til ársins 2022 verði hvorki meira né minna en 20%. Látið er að því liggja að um leiftrandi sókn sé að ræða og verulegan viðsnúning til hagsbóta fyrir þá sem lengi hafa beðið. Þegar nánar er að gáð slæ r nokkrum fölva á myndina. Stóra Landspítalaverkefnið er hluti af þessari aukningu og reyndar meira en helmingur. Eftir standa 7,3 milljarðar til annarrar starfsemi og uppbyggingar, m.a. innan heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið sem þarfnast verulegs hluta af þessari upphæð.

Framlög til að starfrækja sjúkrahús/heilbrigðisstofnanir í landinu á milli áranna 2017 til 2018 munu aðeins hækka um tæplega 340 milljónir króna sem samsvarar prósentubroti. Ekki verður hægt að mæta fyrirliggjandi þörf fyrir þjónustu og niðurskurður er fram undan. Þvert á það sem var lofað.

Þá er hvergi að sjá að uppbygging á landsbyggðinni sé sett í forgang þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar stjórnvalda. Þar verður sérfræðiþjónusta áfram í skötulíki.

Þá má nefna að engin teikn eru um aukna greiðsluþátttöku í tannlækningum fyrir viðkvæma hópa, m.a. aldraða og öryrkja.

Öldrunarheimili búa við verulega vanfjármögnun í dag. Samkvæmt áætluninni til ársins 2022 verða 292 ný hjúkrunarrými tekin í notkun. Þetta eru þörf markmið en sá galli er á gjöf Njarðar að til þess að hægt verði að starfrækja þau vantar að lágmarki þrjá milljarða króna inn í áætlunina. Það bætist við núverandi vanda hjúkrunarheimila sem hleypur á milljörðum. Þá vantar enn peninga til að fjölga dag­dvalarrýmum og bæta aðbúnað sem er aðkallandi á mörgum stofnunum.

Um raunverulega aukningu útgjalda til heilbrigðisþjónustu verður því miður ekki að ræða á tímabilinu eins og lofað var fyrir kosningar. Ekki verður annað séð en við séum enn í órafjarlægð frá endursköpun og uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar. Baráttan mun að óbreyttu standa um að halda í horfinu og áfram verður gengið á laskaða innviði.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×