Handbolti

Þjálfari Makedóníu: Ísland er með frábært lið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gonzalez á hliðarlínunni með Vardar.
Gonzalez á hliðarlínunni með Vardar. vísir/getty
Spánverjinn Raul Gonzalez mun stýra landsliði Makedóníu í fyrsta skipti er það mætir Íslandi í Skopje þann 4. maí næstkomandi.

Gonzalez tók við liðinu af Lino Cervar eftir HM í janúar er Cervar ákvað að taka aftur við Króatíu. Cervar fór óhefðbundnar slóðir með makedónska liðið en fastlega er búist við því að Gonzalez láti liðið spila hefðbundnari handbolta.

Gonzalez þjálfar besta lið Makedóníu, Vardar, sem er komið með annan fótinn í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu. Hann var lengi vel aðstoðarmaður Talant Dujshebaev hjá Ciudad Real og Atletico Madrid.

„Það er mikill heiður að fá að þjálfa landsliðið því mér líkar mjög vel við þetta land,“ sagði Gonzalez sem byrjaði á því að vera með handboltabúðir um allt land í von um að auka áhugann og finna nýtt hæfileikafólk.

Hann gerði samning við Makedóníu til ársins 2020 og horfir til framtíðar.

„Eitt aðalmarkmiðið er að komast á ÓL í Tókýó árið 2020 með sterkt lið,“ segir Gonzalez en hann hefur hóað aftur í gamla jálka sem áttu ekki upp á pallborðið hjá Cervar. Þar á meðal markvörð Barcelona, Borko Ristovski.

Makedónar eru spenntir að sjá hvað Gonzalez gerir með liðið í leikjunum tveimur gegn Íslandi en síðari leikurinn fer fram í Laugardalshöll þann 7. maí. Liðin eru með jafnmörg stig og mikið undir.

„Það er mikil áskorun fyrir okkur að mæta Íslandi sem er með frábært lið. Við erum að reikna með tveimur hörkuleikjum gegn þeim. Þetta eru leikir sem gætu ráðið úrslitum í riðlinum og það er því mikið undir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×