Xi Jinping, forseti Kína, hefur heitið því að verja Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum sem miðar að því að draga úr hnattrænni hlýnun og losun gróðurhúsalofttegunda. Donald Trump íhugar nú hvort að Bandaríkin muni halda sig við samkomulagið eða ekki. BBC greinir frá.
Jinping strengdi þess heit að að halda samkomulaginu á lofti er hann ræddi við Emmanuel Macron, nýkjörinn forseta Frakklands, símleiðis í dag, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá kínverska utanríkisráðuneytinu.
Kínverjar, ásamt Bandaríkjunum, eru helstu mengunarvaldar heimsins í dag en Trump hefur á undanförnum dögum íhugað ásamt sínum helstu samstarfsmönnum hvort að Bandaríkin muni standa við samkomulagið eða ekki.
Sérstökum fundi þar sem það ræða átti þetta mál í Hvíta húsinu í dag var frestað en greint hefur verið frá því að átök séu innan stjórnar Trump hvort Bandaríkin eigi að virða samkomulagið eður ei. Er þetta í annað sinn sem slíkum fundi hefur verið frestað.
Macron lét Trump vita af því þegar sá síðarnefndi hringdi í hann til að óska þeim fyrrnefnda til hamingju með sigurinn í forsetakosningunum að undir hans stjórn myndi Frakkland berjast fyrir Parísarsamkomulaginu.
Um 200 ríki skrifuðu undir samkomulagið sem þótti mikill áfangi í baráttunni gegn hlýnun jarðar en markmið þess er að tryggja að hlýnun jarðar haldist vel fyrir innan tvær gráður.
Kínverjar lofa að verja Parísarsamkomulagið en Trump frestar ákvörðun

Tengdar fréttir

Sigur Trump váleg tíðindi í loftslagsmálum
Sú hæga framþróun sem orðið hefur í heiminum á undanförnum árum í baráttunni gegn hlýnun jarðar á nú í hættu að verða að engu.

Ríkisstjórnin leggur grunn að aðgerðaráætlun í loftlagsmálum
Það er flókið að ná markmiðum Parísar sáttmálans í loftlagsmálum. Þannig komu sex ráðherrar saman í Ráðherrabústaðnum í dag og undirrituðu samstarfssamning um aðgerðaráætlun í loftlagsmálum sem stefnt er að að verði tilbúin í lok þessa árs.

Hvetja Trump til að halda sig við Parísarsamkomulagið
Talið er að Donald Trump geri upp hug sinn um hvort hann haldi sig við Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum í þessum mánuði, jafnvel í þessari viku.