Marine Le Pen hefur játað ósigur í frönsku forsetakosningunum eftir að fyrstu tölur birtust í dag. Hún óskaði Emmanuel Macron, sigurvegara kosninganna, til hamingju með sigurinn. The Independent greinir frá.
Le Pen ávarpaði stuðningsmenn sína fyrir stuttu og sagði að franska þjóðin hefði kosið „óslitinn þráð“ og óskaði Macron góðs gengis með áskoranirnar sem Frakkland stendur frammi fyrir.
Le Pen sagði niðurstöður kosninganna „sögulegar“ og „tilkomumiklar“ fyrir hægri væng franskra stjórnmála. Töluvert fleiri greiddu Þjóðfylkingunni atkvæði sitt nú en þegar faðir Le Pen, Jean-Marie, bauð sig fram til forseta árið 2002.
Þá sagðist hún ætla að leiða fylkingu þjóðernissinna gegn alþjóðasinnum og að næstu fimm árin myndi hún berjast fyrir „franskri samsemd.“
Í ræðu sinni sagði Le Pen að Þjóðfylkingin þyrfti á yfirhalningu að halda. Hún hét því að „leiða baráttuna“ í frönsku þingkosningunum, sem fram fara í næsta mánuði.
„Þjóðfylkingin verður að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga til þess að grípa þetta sögulega tækifæri og standast væntingar frönsku þjóðarinnar,“ var haft eftir henni.
Sérfræðingar telja að Le Pen geri tilraun til að forðast kynþáttafordómastimipilinn, sem lengi hefur loðað við Þjóðfylkinguna, og stofni nýja stjórnmálahreyfingu í kringum skilin á milli þjóðernissinna og alþjóðasinna.
Le Pen heitir því að halda baráttunni áfram

Tengdar fréttir

Hamingjuóskum rignir yfir Macron
Þjóðarleiðtogar heimsins keppast nú við að óska næsta frakklandsforseta til hamingju með sigurinn.

Le Pen viðurkennir ósigur: Emmanuel Macron næsti forseti Frakklands
Marine Le Pen hefur viðurkennt ósigur í forsetakosningunum í Frakklandi.