Erlent

Édouard Philippe nýr forsætisráðherra Frakklands

Atli Ísleifsson skrifar
Édouard Philippe.
Édouard Philippe. Vísir/AFP
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur skipað hægrimanninn Édouard Philippe sem nýjan forsætisráðherra Frakklands.

Édouard Philippe er hægrimaður úr flokki Repúblikana og hefur gegnt embætti borgarstjóra Le Havre frá árinu 2010. Þá hefur hann setið á þingi frá árinu 2012.

Hinn 46 ára Philippe er ekki þekkt nafn í frönskum stjórnmálum, sem getur reynst honum vel. Macron hefur heitið því standa fyrir endurnýjun í frönskum stjórnmálum.

Philippe er lögfræðingur og hefur stundað nám í sömu skólum og Macron. AFP segir þá vera á sömu skoðun þegar kemur bæði að efnahags- og félagsmálum. Er talið að með skipun Philippe sé Macron að reyna að fá Repúblikana inn á miðju stjórnmálanna, en Macron þarf að fá þingið með sér til að ná umbókatillögum sínum í gegn.

Greint var frá skipun Philippe á fréttamannafundi klukkan 12:50. Phillippe tekur við embættinu af Bernard Cazeneuve sem gegnt hefur embættinu frá í desember. Cazeneuve varð forsætisráðherra eftir að Manuel Valls lét af embætti þegar hann sóttist eftir að verða forsetaefni Sósíalista.

Macron tók við embætti forseta Frakklands í gær, viku eftir að hafa unnið sigur í síðari umferð frönsku forsetakosninganna. Macron hafði þar betur gegn Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×