Innlent

Alls 349 Íslendingar í 61 aflandsfélagi í skattagögnunum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra. Vísir/Ernir
Alls eru 349 íslenskar kennitölur í gögnum um eignir Íslendinga í skattaskjólum sem skattrannsóknarstjóri keypti sumarið 2015. Fjöldi aflandsfélaga með íslenska kennitölu  er 61 talsins. Í sumum tilfellum nema undandregnir skattstofnar allt að nokkrum hundruðum milljóna króna.

Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, um skattrannsókn á grundvelli keyptra gagna.

Benedikt segir að alls hafi 34 mál verið tekin til formlegrar rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra vegna grunns um skattalagabrot sem tengjast Panamagögnunum. Þá hafi eitt mál verið tekið til rannsóknar eftir að skattrannsóknarstjóri keypti gögnin. Fyrirséð sé að fleiri mál verði tekin til rannsóknar á næstu mánuðum.

Engin ákæra verið gefin út

Grunur um skattalagabrot í sex öðrum málum hefur vaknað við rannsóknina, að sögn Benedikts. Rannsókn er lokið í þremur málum; tveimur hefur verið vísað til héraðssaksóknara og ákvörðun verið tekin um að gera kröfu um sekt hjá yfirskattamál í þriðja málinu. Engin ákæra hefur verið gefin út.

Rannsóknir á sjö málum eru á lokastigi og þá hefur rannsókn átta mála verið felld niður. Í svari Benedikts segir að þegar hafi verið send út bréf til 229 einstaklinga í tengslum við hin keyptu gögn og til viðbótar þeim sem hafi fengið bréf hafi fleiri íslenskir aðilar, sem komu fram í gögnunum, verið skoðaðir hjá embættinu. Það sé þó án þess að formlegar bréfaskriftir hafi átt sér stað.

Þá segir hann að útilokað sé að segja með nákvæmni um hversu háar fjárhæðir sé að ræða í óloknum málum. Hins vegar nemi undandregnir skattstofnar í einstökum málum allt að nokkrum hundruðum milljónum króna. Þá sé fyrirséð að fleiri mál verði tekin til rannsóknar á næstu mánuðum, þar sem grunur liggi fyrir um skattlagabrot, en rannsókn ekki formlega hafin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×