Erlent

Prófun á eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna heppnaðist

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Pentagon, höfuðstöðvar Bandaríska varnarmálaráðuneytisins,
Pentagon, höfuðstöðvar Bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Vísir/AFP
Höfuðstöðvar Bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Pentagon, hafa skotið niður tilraunasprengihleðslu sína yfir Kyrrahafinu. Með þessari tilraun hefur lykiltakmarki í þróun á eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna verið náð. Associated Press og CNN greina frá.

Eldflaugavarnarstofnun Bandaríkjanna skaut á loft varnareldflaug frá Vandenberg-herstöðinni í Kaliforníu-fylki í dag. Henni var ætlað að skjóta niður langdræga eldflaug, sem Bandaríkjaher skaut sjálfur á loft frá Marshall-eyjum í Kyrrahafinu.

Tilrauninni var hrint af stað aðeins tveimur dögum eftir síðasta tilraunaskot Norður-Kóreu. Á sunnudag skutu norður-kóresk yfirvöld skammdrægu flugskeyti á loft sem hafnaði í Japanshafi.

Á föstudaginn tilkynnti bandaríska varnarmálaráðuneytið að í fyrsta sinn yrðu gerðar prófanir á því að skjóta niður langdræg flugskeyti með það fyrir augum að undirbúa sig ef Norður-Kórea tæki upp á því að senda eitt slíkt yfir hafið.

Tilraunin í dag var sú fyrsta sinnar tegundar af hálfu Bandaríkjanna í nær þrjú ár og sú fyrsta frá upphafi sem hefur langdræga eldflaug, líkt og þær sem Norður-Kórea er nú að þróa, að skotmarki.

Hér má sjá tilkynningu um tilraunina frá Pentagon:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×