Erlent

Kannanir benda til stórsigurs flokks Macron

Atli Ísleifsson skrifar
Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. Vísir/AFP
Skoðanakannanir benda til að flokkur Emmanuel Macron Frakklandsforseta, La République en Marche, kunni að ná stærsta meirihluta á franska þinginu frá stórsigri Charles de Gaulle í kjölfar stúdentamótmælanna og allsherjarverkfallanna í landinu árið 1968.

Ný könnun Ipsos Sopra Steria bendir til að flokkur Macron muni fá 29,5 prósent atkvæða í fyrri umferð frönsku þingkosninganna þann 11. júní.

Nái La République en Marche miklu forskoti á aðra flokka í fyrri umferðinni kann flokkurinn að fá milli 385 og 415 þingsæti af þeim 577 sem í boði eru í síðari umferð kosninganna þann 18. júní. Ný könnun Cevipof fyrir Le Monde bendir til svipaðrar þróunar fylgisins.

Samkvæmt könnun Ipsos Sopra Steria myndu Repúblikanaflokkurinn og stuðningsflokkar hans fá 23 prósent fylgi í fyrri umferð kosninganna, Þjóðfylkingin sautján prósent, flokkur vinstrimannsins Jean-Luc Mélenchon (La France insoumise) 12,5 prósent og Sósíalistaflokkurinn 8,5 prósent.

Í síðari umferð kosninganna verður kosið milli þeirra flokka sem fá meira en 12,5 prósent atkvæða í hverju kjördæmi í fyrri umferðinni.

Könnun Ipsos Sopra Steria gerir ráð fyrir að La République en Marche nái milli 385 og 415 þingsætum, Repúblikanar og stuðningsflokkar milli 105 og 125 þingsæti, Sósíalistaflokkurinn milli 25 og 35 þingsæti, La France insoumise milli tólf og 22 þingsæti og Þjóðfylkingin milli fimm og fimmtán þingsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×