Fótbolti

EM 2020 á Stöð 2 Sport

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Samkomulag er í höfn um að sýnt verði frá lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu 2020 á Stöð 2 Sport. Þetta var tilkynnt í fréttatilkynningu frá 365 miðlum í dag.

365 miðlar hafa einnig tryggt sér sýningarrétt frá Þjóðardeild UEFA en um nýja keppni landsliða er að ræða sem hefst á næsta ári. Ísland verður þar á meðal þátttökuþjóða en í þeirri keppni verður hægt að tryggja sér þátttökurétt í lokakeppni EM.

Hefðbundin undankeppni verður þó einnig fyrir EM 2020 og mun Stöð 2 Sport sýna frá henni líkt og öðrum undankeppni stórmóta líkt og síðustu ár.

EM 2020 verður frábrugðum öðrum Evrópumótum að því leyti að það verður engin eiginleg gestaþjóð og fer mótið fram í alls þrettán löndum, víða um Evrópu. Er þetta gert í tilefni af 60 ára afmæli Knattspyrnusambands Evrópu.

Annar undanúrslitaleikur keppninnar sem og sjálfur úrslitaleikurinn fara fram á Wembley-leikvanginum í Lundúnum. Þá verður Kaupmannahöfn ein af gestgjafaborgum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×