Menning

Listasumar Akureyrar: Menningarhátíðin haldin í 25. sinn

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Akureyri verður í listaham í sumar og mun menningin dreifa sér um allan bæinn. Hátíðin var sett á Laugardaginn.
Akureyri verður í listaham í sumar og mun menningin dreifa sér um allan bæinn. Hátíðin var sett á Laugardaginn. Vísir/Vilhelm
Listasumar Akureyrarbæjar var sett í 25. sinn með pompi og prakt á laugardaginn.  Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar setti hátíðina. Listahátíðin mun standa í allt sumar og mun Akureyrarbær verða fullur af lífi, fjöri og list.

Hlynur Hallsson, listamaður og safnstjóri listasafnsins á Akureyri er einn þeirra sem sér um skipulagningu listasumarsins.

„Þetta nær yfir myndlist, tónlist, leiklist, gjörninga og bókmenntir. Það eru 25 ár síðan Listasumar var fyrst á Akureyri. Þetta hófst í rauninni í Listagilinu þegar byrjað var að breyta þessu verksmiðjuhúsi í vinnustofu listamanna. Þetta hefur verið tækifæri fyrir listamenn á Akureyri en líka aðra sem koma annars staðar frá, til að setja upp verk, “ segir Hlynur.

Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafns Akureyrar.Vísir/Auðunn Níelsson
Listasumar alls staðar

Listasumar verður þó ekki bundið við eitt sýningarrými heldur verða listsýningar um víðan völl. Hlynur segir þó að Listagilið verði miðpunktur hátíðarinnar að vissu leyti en listin mun einnig dreifa sér um bæinn.

Alla þriðjudaga verður alltaf eitthvað um að vera í Deiglunni í Listagilinu, alla fimmtudaga verður eitthvað að gerast í Hofi og á föstudögum verður dagskrá hjá sundlauginni auk annarra viðburða.

Listamennirnir sem taka þátt í ár sóttu um styrki til að setja upp viðburði. Þeir eru á öllum aldri og með mismunandi reynslu að baki.

„Þetta er hugsað til þess að vera með blómlegt menningarlíf yfir sumartímann á Akureyri en auðvitað líka til að gefa listamönnum tækifæri til að vinna við þetta í sumar,“ segir Hlynur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×