Erlent

Nýir ráðherrar taka sæti í ríkisstjórn Macron

Atli Ísleifsson skrifar
Francois Bayrou er formaður MoDem og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Francois Bayrou er formaður MoDem og fyrrverandi dómsmálaráðherra. Vísir/afp
Einn af þungavigtarmönnunum í ríkisstjórn Emmanuel Macron Frakklandsforseta, miðjumaðurinn François Bayrou, hefur sagt af sér sem dómsmálaráðherra landsins til að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin verði bendluð við rannsókn á meintri spillingu.

„Macron er tækifæri okkar lands,“ sagði Bayrou sem segist þó áfram styðja forsetann heilshugar.

Ráðherrar úr röðum flokks Bayrou, MoDem, hafa hver á fætur öðrum sagt af sér á þessum fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar. Varnarmálaráðherrann Sylvie Goulard sagði af sér í gær og Evrópusambandsmálaráðherrann Marielle de Sarnez og dómsmálaráðherrann Bayrou í dag.

Rannsóknin snýr að meintum brotum Evrópuþingmanna flokksins, sem eru sagðir hafa gerst brotlegir varðandi greiðslur til aðstoðarmanna sinna. Þeir neita allir sök í málinu og segir Bayrou að Evrópuþingmennirnir hafi aldrei haft neina ímyndaða starfsmenn á launaskrá.

Sylvie Goulard, Francois Bayrou og Marielle de Sarnez.Vísir/AFP
Bayrou og samflokksmenn hans vilja hins vegar ekki að rannsóknin þvælist fyrir ríkisstjórn Macron, sér í lagi eftir að Macron talaði mikið fyrir því í kosningabaráttunni að útrýma spillingu úr frönskum stjórnmálum.

Hinn 66 ára Bayrou mun nú einbeita sér að starfi sem borgarstjóri í Pau í suðurhluta landsins.

Richard Ferrand lét af starfi sem ráðherra héraðsmála fyrr í vikunni og tók við formennsku í þingflokki LREM, flokki Macron forseta. Ferrand er nú til rannsóknar vegna mála frá þeim tíma þegar hann starfaði sem þingmaður Sósíalistaflokksins frá árinu 2012.

Nicole Belloubet frá stjórnarskrárráði landsins, hefur verið skipuð nýr dómsmálaráðherra,  Florence Parly frá járnbrautafélaginu SNCF nýr varnarmálaráðherra og Nathalie Loiseau,rektor skólans ENA, nýr Evrópusambandsmálaráðherra.


Tengdar fréttir

Le-Pen krefst afsagnar dóttur sinnar

Samband þeirra feðgina hefur ekki verið náið síðan dóttirin rak föður sinn úr flokknum árið 2015 vegna þess að hann hafði gert lítið úr helförinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×