Innlent

Allt að 2000 muni sækja um alþjóðlega vernd

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
550 manns njóta verndar á Íslandi.
550 manns njóta verndar á Íslandi. Vísir/Stefán
Alls sóttu 500 manns um alþjóðlega vernd á Íslandi á fyrstu sex mánuðum ársins, þar af 130 manns í júní. Það eru um 80 prósent fleiri umsóknir en bárust á fyrri helmingi síðasta árs, þegar þær voru 275 talsins. Útlendingastofnun telur að umsóknir á þessu ári geti orðið allt að 2000 talsins.

Umsækjendur í júní síðastliðnum eru af nítján þjóðernum og koma frá Albaníu og Georgíu. 78 prósent umsækjenda eru karlkyns og 22 prósent kvenkyns. Þá eru 85 prósent umsækjenda fullorðnir og 15 prósent yngri en átján ára. Þrír kváðust vera fylgdarlaus ungmenni.

Í tilkynningu frá Útlendingastofnun segir að niðurstaða hafi fengist í 93 mál í júnímánuði. 33 umsóknir hafi verið teknar til efnislegrar meðferðar og þar af níu mál afgreidd í forgangsmeðferð. Þá voru 16 mál afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 44 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu.

24 þeirra 33 mála sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk með ákvörðun um synjun og níu með ákvörðun um veitingu verndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum.

Alls njóta 550 einstaklingar þjónustu í verndarkerfinu á Íslandi, þar af eru um 250 manns í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar. Móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar veita um 300 manns þjónustu í búsetuúrræðum stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×