Innlent

Stórum lyfjaskömmtum fjölgar enn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Embætti landlæknis hefur áhyggjur af ástandinu.
Embætti landlæknis hefur áhyggjur af ástandinu. vísir/hari
Ávísunum sterkra ávanabindandi verkjalyfja hefur fjölgað en það sem af er þessu ári hafa 75 þúsund manns fengið lyfseðil fyrir sterkum lyfjum. Embætti landlæknis lýsir yfir áhyggjum vegna málsins og hefur óskað eftir svörum frá læknum.

Áfram fjölgun þrátt fyrir lyfjagagnagrunn

Árin 2016 og 2017 eru fyrstu árin sem læknar hafa aðgang að lyfjagagnagrunni. Þannig er svokallað læknaráp erfiðara í dag en það er þegar fólk verður sér úti um stóra lyfjaskammta með því að ganga á milli lækna.

Embætti landlæknis segir það þess vegna áhyggjuefni að þeim sem fái ávísað sterkum verkjalyfjum fjölgi enn. Til dæmis séu 43 einstaklingar sem fái oxýkódon og 168 manns Parkódín Forte í stórum skömmtum.

Lengi verið vandamál

Þá fær talsverður fjöldi stóra skammta af flogaveikilyfjum en sum þeirra eru eftirsótt af fólki með fíknivanda. „Embættið hefur fengið svör frá læknum vegna sjúklinga sem fá stærstu skammtana og koma þar fram lýsingar á erfiðum veikindum sem ábending fyrir lyfjagjöf,“ segir landlæknir.

Margir fá stóra skammta af örvandi lyfjum eins og Rítalínu en ofnotkun svefnlyfja og róandi lyfja hefur lengi verið vandamál hér á landi, segir á vefsíðu landlæknisembættisins. Það sem af er árinu 2017 hafa 597 manns fengið svefnlyfinu zopiklón (Imovane) ávísað í skömmtum sem jafngilda 15 mg á dag sem er tvöfaldur venjulegur dagskammtur eða meira.

Imovane er það lyf sem flestir eiga í vandræðum með vegna þolmyndunar og/eða fíknar en lyfið er ætlað til notkunar í stuttan tíma við svefnerfiðleikum.




Tengdar fréttir

Oft ódýrara að kaupa stærri skammt af ávanabindandi lyfjum

Embætti landlæknis hefur sent velferðarráðuneytinu erindi vegna verðs á ávanabindandi lyfjum en í mörgum tilfellum reynist ódýrara að kaupa stærri skammt en minni. Læknir hjá embættinu segir það hafa áhyggjur enda auðveldara að misnota lyfin sé þeim ávísað í stærri skömmtum en nauðsyn ber til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×