Innlent

Gagnrýnivert að ferðamennirnir hafi sloppið með lögreglusekt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Dýraverndunarsamband Íslands gagnrýnir það að ferðamennirnir átta, sem handteknir voru fyrir að hafa drepið lamb í gærkvöldi, hafi sloppið með lögreglusekt. Matvælastofnun hafi átt að hafa yfirumsjón með málinu og kæra mennina og sekta fyrir brot á dýraverndunarlögum. 

„Eins og þetta horfir við okkur hjá DÍS þá eru þeir að sleppa með sekt fyrir eignaspjöll og þjófnað en dýraníðshlutinn liggur óbættur. Lögreglunni ber að beina slíku til Matvælastofnunar og Matvælastofnun átt að refsa þeim, eins og hún á að gera. Þannig að í rauninni er eitthvað að stjórnsýslunni ef lögreglan beinir þessu máli ekki áfram,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndunarsambands Íslands.

Ferðamennirnir átta sluppu með 120 þúsund króna sekt eftir að hafa gerst uppvísir að því að stela lambi og slátra því. Þeir sögðust hjá lögreglu vera Afganar búsettir í Bandaríkjunum í fríi hér á landi. Lambið fannst afhausað í svörtum ruslapoka í húsbíl ferðamannanna.

„MAST beitir sektum við illri meðferð á dýrum þannig að það hefði átt að refsa þeim fyrir illa meðferð á dýrinu en ekki eingöngu fyrir eignaspjöll eða þjófnað. Við höfum þegar sent erindi til MAST og óskað eftir því að þeir hlutist til við að fá þessar upplýsingar til sín ef þær hafa ekki borist nú þegar,“ segir Hallgerður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×