Fótbolti

Góður dagur hjá Íslendingaliðunum í Evrópudeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Guðni og félagar í Norrköping báru sigurorð af litháíska liðinu Trakai.
Jón Guðni og félagar í Norrköping báru sigurorð af litháíska liðinu Trakai. vísir/getty
Jón Guðni Fjóluson og Guðmundur Þórarinsson voru báðir í byrjunarliði Norrköping sem vann 2-1 sigur á Trakai frá Litháen í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Sebastian Andersson kom Norrköping yfir á 32. mínútu og eftir rúmlega klukkutíma leik bætti Karl Holmberg öðru marki við. Maksim Maksimov minnkaði muninn í 2-1 á 66. mínútu og gaf Litháunum von fyrir seinni leikinn sem er á þeirra heimavelli.

Jón Guðni lék allan leikinn en Guðmundur fór af velli þegar 12 mínútur voru eftir. Arnór Sigurðsson sat allan tímann á varamannabekknum en Alfons Sampsted var ekki í leikmannahópi Norrköping að þessu sinni.

Hallgrímur Jónasson og félagar í Lyngby gerðu góða ferð til Slóvakíu og unnu 0-1 útisigur á Slovan Bratislava.

Þetta er í fyrsta sinn sem Lyngby tekur þátt í Evrópukeppni. Í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar sló danska liðið Bangor City frá Wales úr leik, samanlagt 4-0.

Hjörtur Hermannsson stóð vaktina í miðri vörn Bröndby sem vann 2-0 sigur á finnska liðinu VPS á heimavelli. Danirnir eru því í afar góðri stöðu fyrir seinni leikinn í Vaasa eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×