Innlent

Tillögur um stórframkvæmdir í vegamálum koma fram fyrir haustið

Heimir Már Pétursson skrifar
Ráðast þarf í ýmsar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu en einnig víðar um landið.
Ráðast þarf í ýmsar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu en einnig víðar um landið. Vísir/Ernir
Samgönguráðherra segir brýnt að ráðast í mörg stór samgönguverkefni sem kosti tugi og jafnvel hundruð milljarða. Hann reiknar með að tillögur starfshóps um einkaframkvæmd og veggjöld á nokkrum stöðum liggi fyrir ekki síðar en í haust og hægt verði að ráðast í hluta framkvæmdanna strax á næsta ári.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, hefur sagt að ef ríkissjóður einn ætti að standa undir öllum þeim stóru framkvæmdum sem framundan eru í vegamálum gæti tekið áratugi að ljúka þeim.

Jón, hvar standa þau mál, þú hefur verið með hugmyndir um að setja hluta af þessu í einkaframkvæmd?

„Verkefnin eru mjög stór og knýjandi. Það er alveg ljóst að ef við ætlum okkur að ná alvöru átaki á næstu fimm til tíu árum sem um munar til að ná í skottið á okkur í uppbyggingu í vegakerfinu munum við þurfa að leita að mínu mati eftir fjármagni annars staðar en úr ríkissjóði,“ segir Jón.

Unnið hafi verið að því frá því í vetur að kortleggja fjárfrekar framkvæmdir eins og tvöföldun vega inn og út af höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður og tillögur ættu að liggja fyrir í lok sumars eða strax í haust og þá ætti huti stórframkvæmdanna að geta hafist á næsta ári.

„Sumt af þeim verkefnum sem hér eru undir eru tilbúin til að fara í framkvæmdir. Það er búið að hanna og vinna mikla undirbúningsvinnu. Þannig að það blasir alveg við að ef samstaða næst um að fara þessa leið myndum við reyna að hefja framkvæmdir samkvæmt því að einhverju leyti strax á næsta ári,“ segir samgönguráðherra.

Hundrað milljarða framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu

Einkaframkvæmd þýðir að teknir yrðu upp vegtollar á þessum nýju samgöngumannvirkjum og þar er  af nógu að taka. Ef fyrsti hluti Sundabrautar er talinn með segir Jón kostnað við nauðsynlegar framkvæmdir vera um 100 milljarða en til samanburðar fari tíu milljarðar til nýframkvæmda í vegakerfinu á þessu ári.

„Þá eru ótalin fjölmörg verkefni víða um land. Má nefna þar fyrir vestan Dýrafjarðargöng og Teigskóg sem eru verkefni fyrir á annan tug milljarða. Svo er það Dettifossvegur, Berufjarðarbotn, Hornafjarðarfljót, Skógarstrandarvegur  og svo framvegis. Þetta hleypur á svo stórum upphæðum,“ segir Jón.

Staðan sé sérstaklega hrópandi slæm á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem mikil uppbygging eigi sér stað í atvinnulífi en vegir hafi setið á hakanum.

„Og það verður ekki búið við þetta mikið lengur eins og staðan er þar,“ segir Jón.

„En síðan horfum við á þetta út frá umferðaröryggismálum. Þá horfum við á þessa kafla í kring um höfuðborgarsvæðið sem eru slysamestu vegakaflarnir í vegakerfi okkar. Þannig að þjóðhagslegi ávinningurinn af því að fara þar í alvöru framkvæmdir er mjög brýnn. Þar ber að nefna tvöföldun Reykjanesbrautar, að klára það. Tvöföldun upp á Kjalarnesi og upp að göngum og síðan auðvitað á milli Hveragerðis og Selfoss. Þá þarf að fara að huga mjög fljótlega að nýrri brú yfir Ölfusá. Sú gamla þolir einfaldlega ekki þá umferð sem um hana fer orðið. Sérstaklega ekki þungaumferðina,“ segir Jón Gunnarsson.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×