Livan Hernandez er einn af vinsælustu kösturum í sögu bandaríska hafnarboltaliðsins Miami Marlins og hann hjálpaði liðinu meðal annars að vinna titilinn fyrir tuttugu árum. Nú er kappinn orðinn 42 ára gamall og er komin í afar slæm mál.
Hernandez hefur nefnilega lýst sig gjaldþrota því hann skuldar 50 aðilum mikinn pening og samkvæmt heimildum Miami Herald er skuld hans nú orðin næstum því ein milljón dollara eða 106 milljónir íslenskra króna.
Livan Hernandez er heldur betur búinn að vera duglegur að eyða peningunum sínum á síðustu árum en hann skuldar kortafyrirtækjum meðal annars mikla peninga. Skatturinn er líka á eftir honum og hann sveik líka það að borga 220 þúsund dollara lán sem hann fékk árið 2013.
Það hafa margir lent í peningakröggum í gegnum tíðina en það sem gerir fréttina um Livan Hernandez svo sérstaka er að hann fékk meira en fimm milljarða í laun á hafnarboltaferlinum sínum.
Livan Hernandez lék í bandaríska hafnarboltanum frá 1996 til 2012 og fékk rúmlega 53 milljónir dollara í laun á þessum fimmtán tímabilum.
Þegar Livan Hernandez lýsti sig gjaldþrota á dögunum þá átti hann bara 50 þúsund dollara sem dugði skammt upp í milljóna dollara skuld. Hann er því búinn að eyða meira en fimm milljörðum íslenskra króna á tuttugu árum.
Keflavík
Grindavík