Erlent

Vaknaði með höfuðið í kjafti bjarnar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Pilturinn slapp með minniháttar áverka.
Pilturinn slapp með minniháttar áverka. vísir/getty
Ungur starfsmaður tjaldbúða í Colorado í Bandaríkjunum vaknaði á heldur óvenjulegan, en jafnframt óhugnanlegan, hátt í gærmorgun. Pilturinn vaknaði við brakhljóð og þegar hann opnaði augun kom í ljós að höfuð hans var fast í kjafti svartbjarnar. Hann slapp með minniháttar áverka.

Pilturinn er nítján ára en búðirnar eru fyrir ungmenni á aldrinum 12 til 13 ára. Haft er eftir honum á vef Guardian að öðru starfsfólki hafi tekist að styggja dýrið með hrópum og köllum. Áður hafi björninn hins vegar náð að draga sig um þrjá og hálfan metra út úr tjaldinu.

„Ég hugsa að brakhljóðin séu þegar tennurnar nudduðust inn við höfuðkúpuna,“ er haft eftir piltinum, sem kallaður er Dylan.

Sem fyrr segir slapp Dylan með skrekkinn, sem og aðrir í tjaldbúðunum. Fram kemur á Guardian að svartbirnir séu almennt ekki árásargjarnir, en að þeir hafi upp á síðkastið ráðist á fólk í vesturhluta Bandaríkjanna, oftast í þeim tilgangi að verja ungviði sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×