Erlent

Trump ræðst enn á eigin dómsmálaráðherra og yfirmann FBI

Kjartan Kjartansson skrifar
Sessions kom til fundar í Hvíta húsinu í dag. Hann er ekki sagður hafa í hyggju af láta af embætti þrátt fyrir reiði forsetans.
Sessions kom til fundar í Hvíta húsinu í dag. Hann er ekki sagður hafa í hyggju af láta af embætti þrátt fyrir reiði forsetans. Vísir/AFP
Enn á ný hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti lagt til atlögu við Jeff Sessions, dómsmálaráðherra. Nú dregur hann starfandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI inn í gagnrýni sína á Twitter. Ekkert fararsnið er þó sagt á Sessions.

Trump hefur keppst við að gagnrýna Sessions, sem var fyrsti þingmaður repúblikana til að lýsa yfir stuðningi við auðkýfinginn á sínum tíma, eftir að hann lýsti óánægju sinni með hann í viðtali við New York Times í síðustu viku.

Forsetinn hefur verið ósáttur við dómsmálaráðherrann fyrir að draga sig í hlé frá rannsókn ráðuneytis hans á afskiptum Rússa af forsetakosningunum og meintu samráði framboðs Trump við rússnesk stjórnvöld. Hann er sagður kenna Sessions um að sérstakur rannsakandi hafi verið skipaður í málinu.

„Af hverju skipti Sessions dómsmálaráðherra ekki Andrew McCabe, starfandi forstjóra FBI, vin Comey, sem fór fyrir rannsókn á Clinton en fékk stórfé (700.000 dollara) fyrir framboð eiginkonu hans frá Hillary Clinton og fulltrúum hennar. Ræsum fram mýrina!“ skrifaði Trump í tveimur tístum í dag.



 



Virtist hann vitna þar til James Comey, sem hann rak sem forstjóra FBI vegna rannsóknar hans á tengslum framboðsins við Rússa, og þess þegar Jill McCabe, eiginkona Andrews, bauð sig fram til ríkisþings Virginíu árið 2015, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Pólitísk aðgerðanefnd sem studdi Terry McAuliffe, þáverandi ríkisstjóra Virginíu og bandamann Hillary Clinton, gaf í kosningasjóð hennar.

Gæti sjálfur skipt McCabe út

Washington Post bendir á að Trump hafi sjálfur vald til að reka McCabe úr starfi. McCabe tók við embættinu þegar Trump rak Comey. Þá var Sessions ekki dómsmálaráðherra þegar FBI rannsakaði notkun Clinton á einkatölvupóstþjóni þegar hún var utanríkisráðherra.

Blaðið sagði frá því í gær að Trump væri að íhuga að reka Sessions, mögulega sem fyrsta skrefið í átt að því að losa sig við Robert Mueller, sérstakan rannsakanda dómsmálaráðuneytisins á Rússatengslunum.

Trump lýsti vonbrigðum sínum með Sessions á blaðamannafundi í gær. Kallaði hann dómsmálaráðherrann einnig „umsetinn“.

Sessions hefur hins vegar ekki látið neinn bilbug á sér finna eða sýnt merki um að hann ætli að stíga til hliðar. Washington Post segir að starfsmannastjóri Sessions hafi sagt Reince Priebus, starfsmannastjóra Hvíta hússins, að Sessions hefði ekki í hyggju að segja af sér.

Andrew McCabe var aðstoðarforstjóri FBI þegar Trump rak James Comey. McCabe hefur síðan verið starfandi forstjóri alríkislögreglunnar.Vísir/AFP
Ekki talinn hagsmunaárekstur

McCabe var háttsettur innan FBI þegar Jill, eiginkona hans, bauð sig fram í ríkisstjórakosningunum. Eftir kosningarnar var McCabe ráðinn aðstoðarforstjóri alríkislögreglunnar.

Hann átti meðal annars þátt í rannsókninni á tölvupóstum Hillary Clinton sem lauk með því að ekki var talin ástæða til að gefa út ákærur. Siðaverðir FBI komust að þeirri niðurstöðu að McCabe ætti ekki í hagsmunaárekstri við þá rannsókn vegna fjárstuðningsins sem framboð eiginkonu hans fékk.

Eftirlitsmaður dómsmálaráðuneytisins er nú að fara yfir þá niðurstöðu.


Tengdar fréttir

Trump reiður dómsmálaráðherra sínum

Segist sjá eftir því að hafa skipað Jeff Sessions í embætti eftir að hann sagði sig frá rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum.

Trump sagður íhuga að sparka dómsmálaráðherranum

Bandaríkjaforseti og bandamenn hans eru sagðir velta fyrir sér eftirmönnum Jeff Sessions, dómsmálaráðherra. Verulega hefur kólnað á milli þeirra tveggja vegna rannsóknar dómsmálaráðuneytisins á meintum tengslum framboðs Trump við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×