Landssamband smábátaeigenda fagnar ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra um að auka aflaheimildir til strandveiða um 560 tonn á þessari vertíð. Verða strandveiðiheimildir því 9.760 tonn á vertíðinni. Landssambandið tekur fram í yfirlýsingu að ákvörðun ráðherra sýni skilning hennar á mikilvægi strandveiði.
Með ákvörðun ráðherrans var komið til móts við fyrri samþykkt stjórnar landssambandsins sem send var ráðuneytinu í byrjun mánaðarins, en þar var skorað á ráðherra að auka aflaviðmiðun í ágúst þannig að ekki kæmi til stöðvunar veiða.
Heimildirnar munu skiptast hlutfallslega jafnt á milli strandveiðisvæða með tilliti til dagsafla hvers svæðis og er gert ráð fyrir að umrædd viðbót auki sókn um tvo daga á hverju svæði um sig.
