Skoðun

Öngvar máls­bætur

Bubbi Morthens skrifar

Hvað fær mann til að sleppa hundrað og sextíu þúsund norskum laxaseiðum í sjó fyrir vestan, nánar tiltekið á Tálknafirði? Hann segir sjálfur frá því að, jú, hann hafi verið að spara sér aur, það hefði verið of kostn­aðar­samt að þrífa upp dauð laxaseiði. Fyrirtækið Eyrar-fiskeldi hafði ekki gengið sem skyldi, það hefði verið dýrt að þrífa upp dauðu seiðin ef hann léti þau drepast úr hungri og þess vegna hefði hann sleppt þeim í hafið meðan þau tórðu enn.



Það vita allir sem hafa fylgst með málum hér á landi og umræðunni um laxeldi að þetta flokkast undir glæp. Glæp gegn náttúrunni, glæp gegn íslenska laxinum. Maður sem ákveður að fara út í laxeldi og hagar sér svona þegar hann sér fram á gjaldþrot er illa áttaður. Hundrað og sextíu þúsund seiði, 300-600 gramma þung. Þetta er svo há tala í samhengi við hvað er að ganga af laxi í íslenskar laxveiðiár að mann setur hljóðan. Og hvar var eftirlitsstofnunin þegar þetta gerðist? Við þeirri spurningu þarf að fá svar.



Útgerðarmaðurinn sem málið varðar á sér öngvar málsbætur. Hann hefur varpað skugga á umræðuna um laxeldið þar sem verið er að reyna að ná sátt um þessa hluti. Laxeldi er ógn við íslenska náttúru og íslenska laxinn. Okkur sem teljum laxeldi í sjókvíum vera tímaskekkju og berjumst fyrir því að það sé stundað í landkvíum eða þá að það sé notaður geldfiskur í sjókvíum hrýs hugur við slíkum siðferðisbresti. Svona framganga sýnir ennþá einu sinni að villimennskan gagnvart íslenskri náttúru viðgengst nánast fyrir opnum tjöldum. Því miður.



Höfundur er tónlistarmaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×