Vegna góðrar verkefnastöðu hjá Icelandair næsta vetur hefur félagið dregið til baka uppsagnir u.þ.b. 50 flugmanna. Félagið sagði upp 115 flugmönnum í júní en um 520 flugmenn starfa hjá Icelandair.
„Þetta má fyrst og fremst rekja til aukinna erlendra leiguverkefna sem félagið hefur unnið að á undanförnum mánuðum í samvinnu við systurfélagið Loftleiðir Icelandic, m.a. á Grænhöfðaeyjum eins og komið hefur fram í fréttum,“ segir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair.
Vísar hann í fréttir sem sagðar voru í byrjun mánaðarins um samkomulag Loftleiða, flugfélagsins TACV Cabo Verde Airlines og ríkisstjórnar Grænhöfðaeyja, sem statt er í Vestur-Afríku, gerðu við endurskipulagningu flugfélagsins TACV Cabo Verde. Var þá sagt að markmiðið væri að styrkja alþjóðaflugvöllinn á eyjunum og vinna að því að gera eyjaklasann að álitlegum ferðamannastað allt árið um kring.

